top of page

Heitustu heimilistrendin

Nokkrir af helstu innanhússarkitektum og hönnuðum landsins spá í spilin fyrir lesendur Heimili og hönnun

Þægindi í fyrirrúmi

Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og eigandi lýsingarhönnunarstofunnar Hildiberg, segir að svokölluð upplifunarlýsing, sem hefur verið eftirsótt um nokkurt skeið, komi til með að njóta vaxandi vinsælda.

Vinsældirnar telur Kristján haldast í hendur við aukna heimaveru síðustu ára og meiri kröfur um notalegheit og þægindi af ýmsum toga. „Vinsældir upplifunarlýsingar fyrir heimili hefur komið í sveiflum síðustu fimmtán ár. Með tilkomu ledsins og möguleikana á að geta breytt lit á ljósi og átt við hreyfingu á ljósi þá varð hún mjög vinsæl. Svo datt hún aðeins úr tísku á tímabili en er orðin mjög eftirsótt aftur eftir að ljósastýring Philips Hue og lausnir komu á markað, en eins og kunnugt er gera þær fólki kleyft að stýra ljósum með appi,“ segir hann.

Kristján bendir á að einn helsti kosturinn við slíkar lausnir sé sá að fólk geti sett búnaðinn upp sjálft, án aðstoðar, auk þess sem hann sé sáraeinfaldur í noktun. „Þú þarft eingöngu að skipta út peru eða líma ledborða undir innréttingu og stinga í sambandi,“ lýsir hann, „og svo stýrirðu þessu með appi í símanum.“

Lausnirnar segir hann mjög eftirsóttar til dæmis í barna- eða unglingaherbergi. Auk þess séu þær nánast staðlabúnaður hjá tölvuleikjaspilurum. „Enda er þetta frábær viðbót, nánast eins og skraut á góðri köku og hægt að hafa gaman af búnaðinum, hvort sem til stendur að nota hann til að ná góðri slökun eða fyrir partí í sumar.“

Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og eigandi lýsingarhönnunarstofunnar Hildiberg.

Náttúruleg lýsing

Kristján segir náttúrulega lýsingu sömuleiðis vera mikið í tísku og hann reiknar með að vinsældirnar eigi bara eftir að aukast þegar fram líða stundir. „Náttúrleg dagsbirta er orðin hluti af lýsingarhönnun. Það er verið að vinna meira með rými þar sem hún er hluti af heildarlýsingarkerfinu,“ segir hann.

Að sögn Kristján er ekki að ástæðulausu sem lýsingahönnun tekur aukið mið af slíkri birtu. Náttúruleg birta sé síbreytileg, stýri svefnvenjum okkar og hafi áhrif á tilfinningar okkar og líðan og hafi mótað mannskepnuna í aldanna rás. Hún sé einfaldlega besta lýsing sem völ er á. „Rannsóknir sýna að ljósabúnaður sem er búinn þeim eiginleika að geta líkt eftir slíkri birtu getur í sumum tilvikum haft sömu jákvæðu áhrif og hún. Þess vegna er slíkur búnaður meðal annars að verða eftirsóttari, þess vegna eru fleiri gerðir hans að líta dagsins ljós.“

Kristján bendir þó á að ekki sé víst að allar þessar lausnir skili betri heilsu og líðan. En hvort sem þær geri það eða ekki þá séu margar óneitanlega skemmtilegar og geti sett fallegan svip á heimilið og önnur rými.


Linkur á greinina

Comments


bottom of page